Um Fágun

Félag áhugafólks um gerjun, eða Fágun, eru samtök fólks sem hefur sameiginlegt áhugamál að stuðla að bættri þekkingu og menningu í gerð gerjaðra matvæla og bættri og fjölbreyttari bjórmenningu. Aðild að félaginu veitir félögum öllum frábær afsláttarkjör á helstu bjórbari og brugghús landsins, með höfuðáherslu á handverksbrugg og spennandi nýjungar. Viðburðir okkar fara að jafnaði fram á þeim stöðum sem hafa boðið okkur afslætti, eða á nýjum bjórstöðum eða brugghúsum þar sem við kynnum okkur það helsta sem er að gerjast á staðnum og oft fáum við að kíkja í tankana og fræðast og ferðast um staði og viðburði sem eru að öllu jöfnu ekki opnir almenningi.
Síðan 2010, sirka, hefur Fágun verið vettvangur heimabruggara, bjóráhugafólks, ostagerðar og þeirra sem gerja og sýra alls konar matvæli. Félagið hélt úti spjallborði í áraraðir, sem enn er í loftinu. Þar er nú lítil virkni en alls konar tímalaus fróðleikur liggur þarna sem og óbein saga félagsstarfsins frá upphafi. Hægt er að heimsækja spjallborð Fágunar hér: https://fagun.is/forum/.
 
Félagið stendur líka reglulega fyrir námskeiðum, keppnum og viðburðum til að vekja áhuga almennings og félagsmanna á efninu. Fundir eru haldnir að jafnaði einu sinni í mánuði, en geta þó verið oftar. Á fundina eru öll velkomin, hvort sem þau eru meðlimir í félaginu eða ekki, en aðrir viðburðir en mánaðarfundir á vegum félagsins eru félögum oftast að kostnaðarlausu, eða niðurgreiddir. Ársgjald er sett á aðalfundi félagsins, sem oftast er haldinn í febrúar. Aðildin gildir í eitt ár á milli aðalfunda (frá febrúar til febrúar) og er 5.000 kr fyrir starfsárið 2021.

Tilgangur Fágunar

Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur þess að:
    • Sameina áhugafólk um gerjun.
    • Miðla þekkingu á gerð gerjaðrar matvöru og menningu henni tengdri.
    • Stuðla að bættri ímynd heimagerjaðra matvæla.
    • Stuðla að lagabreytingum til að heimila gerjun drykkja til einkanota.


Í starfsemi og reglugerðum félagsins, sem stofnað var árið 2010, vísar hugtakið gerjun til beitingar örvera í gerð matvæla og drykkja. Í því skyni starfrækir félagið heimasíðuna fagun.is, þessa hér, þar sem spjallhópar eru aðgengilegir öllum í gegnum hlekk, spjallhóp á Facebook og síðu félagsins má einnig finna þar.


Heimagerjun á Íslandi

Heimagerjun matvæla hefur tengst matarmenningu Íslendinga frá því fyrstu Íslendingarnir hófu hér búsetu og hefur bæði haldið lífi í fólki og glætt menningu og magaflóru landsmanna lífi allar götur siðan. Einn angi fjölbreyttrar matarmenningar eru gerjaðir, heimabruggaðir drykkir. Heimabruggun hefur blómstrað í öllum nágrannalöndum okkar um drykklanga hríð. Í Bandaríkjunum, til dæmis, var heimabruggun aftur gerð lögleg nokkuð seint, eftir að bannárin í upphafi 20. aldar höfðu gert hana útlæga. Þó er þar komin hart nær hálf öld síðan heimabruggun var leyfð með lögum í öllum ríkjum þessa annars íhaldssama lands. Í nágrannalöndum okkar og almennt í öllum vestrænum ríkjum ríkir sú regla að gerjun drykkja heima við til einkanota sé leyfileg. Ísland er eitt með mörk áfengisprósentu það lága (2,25%) að gerð flest allra léttra áfengra drykkja er í raun ólögleg.
Litlu brugghúsin
Afnám banns við heimabruggun virðist alls staðar hafa borið með sér uppgang lítilla, staðbundinna brugghúsa, sem sækja innblástur, starfsfólk og hráefni í sitt nánasta umhverfi og laða þau oft einnig að sér ferðalanga og bjóráhugafólk mjög langar leiðir til að upplifa það sem borið er fram á slíkum stöðum. Gerjun drykkja hefur löngum verið stunduð hér á landi. Gerjun er sú aðferð að breyta sykruðum legi í léttan áfengan drykk, til dæmis áfengan berja- og ávaxtasafa, mjöð sem er að uppistöðu uppleyst hunang, síder sem er að uppistöðu eplasafi, bjór og léttvín. Gera má ráð fyrir að fjöldinn allur af Íslendingum geri létta áfenga drykki á heimili sínu til einkanota sér til ánægju og yndisauka, þó svo nákvæm tala um þann fjölda liggi ekki fyrir.

Félagar í Fágun í gegnum tíðina hafa einmitt margir haldið til starfa í brugghúsum um allt land, eða tekið þátt í stofnun þeirra, eða heimabruggun vakið þannig áhuga að þeir hafa haldið utan í nám og komið aftur sem útlærðir bruggmeistarar og bætt mjög áfengismenningu Íslendinga á síðustu árum. Vöxtur litlu brugghúsanna á Íslandi hefur, hér eins og annars staðar, að mestu leiti verið knúinn áfram af áhuga heimabruggara og hefur þessi starfsemi blásið miklu lífi í þorp og byggðarlög um allt land undanfarinn áratug. Þessi handverks- og örbrugghús laða til sín gesti víða að og eru bæjarfélögum sem hýsa þau til mikils sóma, svo um er talað. Oft fylgir þessum brugghúsum önnur starfsemi, eins og aukið menningarlíf og listaviðburðir sem þá lyftir bæjarbrag á enn hærra stig.
Heimabruggun
Við teljum að lögleg heimabruggun ætti ekki að hafa í för með sér aukna hættu á misnotkun áfengis. Þar skiptir t.d hráefniskostnaður, kostnaður við tæki og búnað og það sem sennilega hefur mesta fælingarmáttinn fyrir alla, löng, löng, mjög löng bið eftir að hægt sé að njóta drykkjanna sem bruggaðir eru heima. Hægir sú staðreynd sennilega á flestum sem ekki eru í þessu af ástríðunni einni saman, að bíða þurfi eftir hinum heimabrugguðu veigum í oft fjölmargar vikur og/eða mánuði. Ástríða fyrir nærumhverfi sínu, hagnýting jurta, útsjónarsemi og sköpunarkraftur eru allt einmitt kostir sem prýða margt félagsfólk okkar í Fágun. Drykkir sem þau gerja, bæði með tilbúnu geri og náttúrulegu, eru sennilega alls staðar á mögulegum gerjunarkvarða, frá 0,00% upp í 12-16%. Erfiðara, eða nær ómögulegt, er að gerja sterkari drykki án þess að grípa til eimingar, sem áfram skal vera bönnuð samkvæmt nýlegum lagafrumvörpum um að heimila beri heimabruggun. 

Fágun fær reglulega fyrirspurnir og tekur á móti fólki sem hefur alla jafna ekki hugmynd um að heimagerjun sem það stundar geti verið ólögleg og mætir það því á fundi til að sækja sér reynslu og hugmyndir. Fælingarmáttur laganna eins og þau eru nú eru harla lítil og framkvæmd þeirra virðist ekki benda til að mikill áhugi sé á að fram fylgja þeim meðal almennings. Fólk, bæði sem tengist félaginu og sem við ræðum við almennt, virðist koma af fjöllum þegar við kynnum þeim staðreyndir málsins og mælum með því að það haldi gerjuðum drykkjum undir 2,25% til að vera ekki að brjóta áfengislögin. 2,5% er nefnilega full langt gerjað skv. lögum, þó það sé einungis ætlað til einkaneyslu. Þessi staðreynd, að lögin heimili ekki heimabruggun til einkanota, kemur nær öllum á óvart, hvort sem um er að ræða almenning, löglært fólk eða fulltrúa þjóðarinnar á alþingi er um þetta hefur verið rætt. Það skýtur því skökku við að áhugamál, sem er stundað af jafn mörgum og raun ber vitni og gefur af sér reynslu og þekkingu sem undanfarin ár hefur leitt af sér fjölmörg ný fyrirtæki, sé refsivert.
Frumvörp til laga og umsagnir Fágunar
Félagið ítrekar stuðning við lagafrumvörp sem leggja til að heimila heimabruggun til einkaneyslu og hvetur í leiðinni þingmenn í öllum flokkum til að skoða slík mál með opnum hug. Það þarf ekki nema örlitla breytingu á áfengislögum til að þetta sé hægt en færir þá um leið áhugafólki um gerjun betra umhverfi til að rækta sitt áhugamál og gerir það löglegt. Það virkar þá vonandi sem hvatning til góðra verka og gerir vonandi þeim menningararfi sem felst í gerjun matvæla og drykkja enn hærra undir höfði til framtíðar. Þá hættir styrkur gerjaðs vínanda að skipta höfuðmáli við þetta annars meinlitla áhugamál, sem oft gerir venjulegt fólk að lögbrjótum sér óafvitandi.
Fágun hefur sent Alþingi umsagnir við lagabreytingatillögur sem félagið telur að tengist starfsemi sinni og hagsmunum félagsmanna. Finna má síðustu umsagnir á vef Alþingis, við 480. mál loggjafarþings 151 og við 48. mál loggjafarþings 150 hér í tenglum. Fágun mun áfram leggja sitt lóð á vogaskálarnar, ásamt sínum félagsmönnum, að gera þessu áhugamáli hærra undir höfðu og koma til aukinnar virðingar.