Sælir!
Ég hef nú alltaf ætlað að kynna mig - þó ég hafi nú hitt nokkra ykkar í ferðinni fyrir viku síðan.
Ég er tiltölulega ný í þessum bransa, byrjaði fyrir um ári síðan að leika mér með kittin frá ámunni (og vínberinu á Akureyri þar sem ég bjó fyrir norðan). Fékk svo nóg af því að drekka vondan bjór og ákvað því að drífa mig í AG bruggun. Nennti reyndar ekki að koma mér upp meskikeri (og er heldur ekkert sérstaklega góð í föndrinu) svo ég er bara með risa pott frá fastus og meskipoka frá ámunni. Var mjög fegin að hafa ekki farið út í að sauma mér meskipoka þegar ég dróg pokann upp úr virtinum - mínir saumar hefðu án nokkurs efa brostið. Nýtnin hefði líklega getað verið örlítið betri en ég held mér muni takast að bæta það án þess að fara út í að kreista pokann.
En nú er það alveg gífurlega margt sem mig langar að prófa; seinbúinn páskabjór með súkkulaði ("hippa" kakó eins og einhver sagði); hveitibjór fyrir sumarið; og ýmsar tilraunir til að átta mig betur á maltinu og humlunum.
Einhvern tímann langar mig svo að prófa að nýta byggið hans pabba. Hann hefur verið að prófa nýjar þurrkunaðferðir þar sem að hann nýtir sitt heimarafmagn í stað olíuofnanna og notar sömu tæki og aðstöðu og í súgþurrkuninni, sem þýðir mun lægri þurrkunarhiti. En þær tilraunir bíða betri tíma - hef ekki alveg pláss fyrir möltunarsull hér í litlu íbúðinni minni.
Ég hlakka svo bara til að fylgjast með umræðunni hér - þessi síða er alveg frábært framtak!