Þetta gæti gefið öðrum hugmyndir um gerjunar-hitastýringu, bæði ódýra og dýra.
Mín uppsetning var gerð í flýti til þess að halda hitastiginu rétt stilltu við fyrstu gerjunina. Mig vantaði góða og fljótlega leið þess að halda hitastiginu réttu því að mig langaði ekki að klúðra fyrstu gerjuninni.
Ég harma hryllileg gæði á myndunum, en GSM síminn minn er því miður ekki betri.
Lýsing á uppsetningu:
Ég er með eitt bað sem að er ekki í neinni notkun (gamalt herbergi sem var eitt sinn baðherbergi en er núna geymsla ..).
Ég ákvað að dýfa ílátinu mínu ofan í baðkarið og láta renna stanslaust í það vatni sem að hefur ákveðið hitastig (stillt með blöndunartækjum).
Vandamálið sem að myndaðist var það að baðkarið það fyllist og ég þarf að hafa fool-proof leið til þess að láta baðkarið tæmast ef eitthvað slæmt gerist (t.d. einhver á við stillingar á krönunum).
Ég man fyrir nokkrum árum þá sá ég að mig minnir í fréttum eina sniðuga uppfinningu sem að ekki náði flugi, "vaktandi tappa" í baðkar, sem að tæmir baðkar ef að það offyllist. Hugmyndin er sú að þú bindur eitthvað með minni eðlisþyngd en vatn (t.d. plastflösku fulla af lofti) við tappann í baðkarinu og þegar vatn fer yfir ákveðinn þröskuld þá lyftir hluturinn tappanum úr baðkarinu.
Ég ákvað að misnota annað lögmál og láta vatnið ekki fylla baðkarið nægilega hratt fyrir tappann að togast alla leið úr, en hinsvegar nægilegt til að toga tappann aðeins úr.
Endaniðurstaðan er sú að það fer jafn mikið vatn úr karinu og það fer í það, sem veldur því að ég er alltaf með ferskt vatn (engin mygla) og það er læst í ákveðnu hitastigi (í þessu tilfelli, 20°c).
Eina sem að þarf að gera er að binda plastflösku við tappa í baðkari, stilla lengdina á bandinu til að hæfa hæð gerjunarílátsins í baðkarinu og stilla svo vatnsflæðið til að hæfa baðkarinu. Eftir það þá má láta þetta bíða í viku.
Ég er búinn að halda hitastiginu stöðugu núna næstum í viku og er bara nokkuð stoltur af sjálfum mér fyrir reddingu sem að tók hálftíma að hanna og smíða.
Nú hvet ég alla aðra að sýna hvað þeir nota til hitastýringar hjá sér!
