Leyfið spjallverjum að fylgjast með því sem þú ert að gerja. Skrifaðu lýsingu fyrir og eftir gerjun til að sýna okkur hvað hægt er að gera og hverju þið lendið í.
Er að hita vatn í meskingu fyrir þennan... Þetta er lítið breytt uppskrift sem ég fann á netinu. Skipti út smá korni og humlum, en hélt þessu nokkurn veginn eins.
3.600 gr Pilsner malt (eina grunnmaltið sem ég á - annars hefði ég notað Pale Ale).
1.400 gr Hveitimalt
900 gr Crystal 60°L (mætti nota CaraMunich í staðinn)
450 gr Maltaðir hafrar (í upprunalegu uppskriftinni er haframjöl, en Úlfar átti til maltaða hafra og gaf mér smá)
450 gr Roasted Barley
450 Chocolate malt
55 gr Fuggle (4.9%) - 60 mín (var EKG í upprunalegu uppskriftinni)
15 gr East Kent Goldings (4.5%) - 30 mín
15 gr East Kent Goldings (4.5%) - 10 mín
Safale S-04
Grunar að þessi verði ansi ljúffengur.
Slæmdægur Brugghús
Í gerjun: Imperial Mild
Á flöskum: Allskonar gamalt dót
Á kút: London Porter, Norskt sveitaöl
Framundan: Bjór
Þessi bruggdagur var dagur herra Murphys. Eða kannski frekar dagur vitleysu í mér.
Þetta byrjaði mjög vel. Meskingin gekk vonum framar, og hitastigið féll ekki nema um eina gráðu. Ég ákvað að nota meskifötuna mína með svefnpokanum, frekar en kæliboxið, sem gefur minni nýtni og lekur í þokkabót. Mjög gott. Svo kom að því að láta renna af korninu. Þá sat allt fast. Ég hugsaði mig um í tvær sekúndur og áttaði mig þá á því að ég hafði steingleymt að skrúfa hosuna í meskikerið, þannig að kornið sat auðvitað pikkfast í krananum. Ég hellti allri meskingunni í snatri yfir í gerjunarfötu og ætlaði að ná í hosuna í kæliboxið. Þá fann ég ekki skiptilykil, og á þó tvo. Eftir geysilega leit fann ég annan þeirra, en hann hafði einhverra hluta vegna gleymst úti við grill, og var ryðgaður fastur (ef ég hefði hugsað skýrt hefði mér kannski dottið í hug að sækja WD-40, en þegar hingað var komið var pirringurinn aðeins farinn að ná tökum á mér). Ég leitaði logandi ljósi og fann loksins hinn lykilinn. Tókst að losa hosuna og ætlaði að skrúfa hana í fötuna. En þá fann ég ekki millistykkið sem þarf til að skrúfa hana þangað, þannig að þetta féll um sjálft sig. Ég endaði á því að skrúfa hosuna aftur í kæliboxið og hella meskingunni aftur yfir. Eins gott að ég trúi ekki mikið á HSA (en ég trúi á slettur, og allt var útatað í kolsvörtum virti).
Jæja, skolun og suða gengu mjög vel, og ég komst fljótt aftur í sólskinsskap. Svo kom að kælingu. Ég henti kælispíralnum ofan í pottinn eins og lög gera ráð fyrir, tengdi og setti kalda vatnið í gang. Vaskurinn var hins vega fullur af drasli og ég var að reyna að taka eitthvað af því upp úr svo ég gæti athafnað mig betur. Þá vildi ekki betur til en svo að slangan sem skilaði af sér vatninu úr spíralnum kastaðist til og sprautaði á handlegginn á mér - um það bil þremur sekúndum eftir að ég skrúfaði frá. Tæplega 100°C heitt vatn sprautaðist á handlegginn á mér. Það var ekkert spes. Nú er ég með fagurrauða skellu á framhandleggnum, alsetta dýrindis blöðrum.
Ég lærði þó af þessu... Ekki skrúfa frá vatninu í kælinguna fyrr en maður er búinn að ljúka sér af í vaskinum.
Gerjunin gengur þó vel, og ég sé fram á að þetta verði bragðgóður bjór. Og nú hlýt ég líka að vera búinn að taka út hrakfallaskerfinn minn í bili, þannig að á næstunni get ég vonandi bruggað sæmilega stóráfallalaust.
Slæmdægur Brugghús
Í gerjun: Imperial Mild
Á flöskum: Allskonar gamalt dót
Á kút: London Porter, Norskt sveitaöl
Framundan: Bjór
Þessi er loksins á leið á flöskur (gafst upp á að bíða eftir kútunum, og um leið og sú ákvörðun var tekin komst ég að því að það sem mig vantar er komið til landsins. En þá varð ekki aftur snúið). Endaði í 1.011, og flotvogarsýnið bragðast undursamlega. Ekkert aukabragð, þrátt fyrir næstum tvo mánuði í primary.
Ég gæti svei mér þá drukkið allan skammtinn ókolsýrðan. Þetta er algjört nammi. Vel ríflegt ristað bragð, en líka mjúkt bragð frá súkkulaðimaltinu. Mjög gott jafnvægi.
Get ekki beðið eftir að hann kolsýrist.
Slæmdægur Brugghús
Í gerjun: Imperial Mild
Á flöskum: Allskonar gamalt dót
Á kút: London Porter, Norskt sveitaöl
Framundan: Bjór