Best að reyna að veita þér einhvers konar svör...
1.Hvað er æskilegt OG fyrir suðu ? - Þessu er ekki hægt að svara. Þetta fer algjörlega eftir því hver eðlisþyngdin á að vera eftir suðu. Það eru til reiknivélar sem geta reiknað þetta út fyrir þig, ef þú veist hvert OG á að vera eftir suðu, og ert með suðutímann og uppgufunina á hreinu. Gúglaðu þetta (það er talað um "pre-boil gravity").
2.Gerjunar-hitastig? - Ég geri ráð fyrir að þú sért að gera öl, og þá er jafnan miðað við 18-20 °C umhverfishita. Þetta er þó misjafnt eftir stílum, en þetta er þumalputtareglan. Semsagt, stofuhiti, eða rétt fyrir neðan hann.
3.Þarf að hafa humlana í poka í suðunni ? Nei. Og þú þarft heldur ekki að sía þá frá eftir suðuna frekar en þú vilt. Ég hef aldrei gert það. Við Úlfar gerðum smá prufu á þessu, gerðum einn skammt af bjór sem fór í tvær fötur, síuðum annan en ekki hinn, og það var enginn merkjanlegur munur á humlabragðinu. Hins vegar virka humlar sem ágætis gernæring, þannig að það mætti alveg færa rök fyrir því að þú værir betur settur með humlana í gerjunarílátinu.
4.Er alltaf botnfall í homebrew bjór (þ.e. flöskunni) ? - Já, ef þú lætur gerið sjá um kolsýruna. Ef þú myndir sía bjórinn og setja kolsýruna í í kút, nota svo bjórbyssu til að koma honum á flöskur væri ekkert botnfall. En á móti missirðu ýmislegt annað. Maður er snöggur að komast upp á lagið með að hella úr flöskunni og skilja botnfallið eftir. Hafðu ekki áhyggjur af því. Ger er líka meinhollt, og allt í þessu fína þó að smá slæðist með í glasið.
5.Hvaða sykur og hve mikið er sett í við átöppun ? (Er að svæla í mig coopers bjór sem er flatari en Danmörk) - Best er að nota dextrósa eða eitthvað slíkt, en það er þó ekkert lykilatriði, þar sem þetta er svo lítið magn að það hefur engin teljandi áhrif á bragðið. Sumir nota hunang, maltextract, síróp... Hér er ekkert algilt. Magnið fer aftur eftir stílnum, þannig að því er ekki hægt að svara í fljótu bragði. Það er geysilegur munur á kolsýrumagninu í hveitibjór og stout, svo dæmi sé tekið. Hér mæli ég með því að fara á
http://www.byo.com" onclick="window.open(this.href);return false; og finna þar reiknivél (minnir að hún sé í excel skjali), og töflu yfir priming rate í mismunandi stílum. Held að þar sé hægt að sjá mismunandi tölur eftir mismunandi sykrum.
6.Þegar er þurrhumlað eru humlarnir þá ekkert soðnir,hvernig er þá með sótthreinsun á þeim hluta humlanna ? - Nei, í þurrhumlun má alls ekki sjóða humlana, því þá myndu þeir missa lyktina sem er það sem maður er að sækjast eftir með þurrhumlun. Það er algjör óþarfi að sótthreinsa humla, því þeir eru náttúruleg sýklavörn. Humlarnir verja bjórinn gegn óværum, upp að vissu marki. Ef þú hefur einhverjar áhyggjur af þessu gætirðu líka notað pressukönnuaðferðina, en þá seturðu humla og heitt vatn (undir suðumarki, þó - best að sjóða í hraðsuðukatli og láta standa í smá stund) í pressukönnu og hellir því út í. Ég geri þetta alltaf orðið þegar ég tappa á flöskur (ef ég vil þurrhumla, þ.e.a.s.), og nota svo humlateið til að leysa upp sykurinn fyrir átöppunina.
Vona að þetta svari einhverjum spurningum.