Barinn opnaði sl vor. Í upphafi voru þeir með 250 lítra Braumeister og söfnuðu upp góðum lager, afrakstur ca mánaðarlangs bruggmaraþons. En allur bjórinn seldist upp á fyrstu helginni og því þurftu þeir að fara í 500 lítra Braumeister eftir einn mánuð (http://www.speidels-braumeister.de" onclick="window.open(this.href);return false;). Í dag hafa þeir undan að framleiða til sölu á barnum en eru einnig með aðra míkróbjóra á krana og svo nokkra kúta af klassískum lager bjór til vara ef allt klárast.
Bruggúsið er staðsett í öðrum enda 70 fm gólfflatarins, barinn er í miðju og sæti í hinum endanum. Brugggræjurnar eru sem fyrr segir 500 lítra Braumeister og nokkrir gerjunartankar frá sama framleiðanda. Ég mætti á svæðið þegar bruggun á weissbier var um það bil að ljúka. Þeir sem þekkja til minni útgáfunnar af Braumeister myndu strax átta sig á ferlinu, það er nánast alveg eins, bara 10 til 20 sinnum stærra. Það hefur áhrif á tímann sem það tekur að brugga, t.d. er upphitun á vatni mun lengri og kælingin með innbyggða kælielementinu tekur 2 tíma. Það mætti hins vegar alveg nota counterflow kæli þegar virtinum er dælt í gerjunartankana til að flýta því.
Eftir gerjun er allur bjór settur á kúta. Nú nota þeir hefðbundna álkúta og tekur það lungann úr einum degi að hreinsa og fylla á þá. Svo þarf að bera þá upp á loft þaðan sem þeir eru svo sóttir einn og einn til sölu á barnum niðri. Til að einfalda þetta ferli er verið að skipta yfir í plastkútana, þá sömu og Ölvisholt notar. Bruggmeistarinn sagði að þá myndi hann præma bjórinn með sykri beint í kútinn og ekki nota kolsýru. Það er áhugaverð pæling og spennandi að sjá hvernig það gengur upp.
Það er bruggað ca 3svar í viku. Þá daga sem er bruggað er barinn ekki opinn. Hann er bara opinn eins og er á miðvikudags, föstudags og laugardag kvöldum. Framleiðslan er sem sagt 1000 til 1500 lítrar á viku. Allur bjór er gerjaður með þurrgeri, mest US-05. Athyglisvert er að bruggmeistarinn notast ekki við hitastýringuna í gerjunartönkunum heldur gerjar bara við lofthita á barnum sem er ca 22 gráður. Ég verð að segja að það kemur aðeins niður á gæðunum. Þeir hafa hins vegar verið í þeirri stöðu að bruggun verður að ganga hratt fyrir sig því eftirspurnin er langt umfram áætlanir og því lítill tími til tilrauna og fínpússningar á ferlinu. Það stendur þó vonandi allt til bóta nú þegar komið er smá reynsla á rennslið.
Vinkona mín er stjórnarformaður barsins, hún og maður hennar koma að honum sem fjárfestar og ráðgjafar. Við áttum áhugavert spjall um bjórmarkaðinn í Noregi. Það var ekki átakalaust að koma þessum bar af stað. Það þurfti heilmikil samskipti við ótal eftirlitsaðila og margar hliðranir og skáskot á reglugerðir. En það tóks, ekki síst vegna þess að barinn selur engan mat. Það eru háir skattar á bjór sem þau þurfa að standa skil á. Skatturinn tekur þau trúanleg um hvað þau framleiða og því þurfa þau ekki að senda allt í burtu bara til að kaupa það aftur. Í Noregi má selja bjór undir 4,75% í matvöruverslunum. Hann ber einnig lægri skatt. Sterkari bjór má aðeins selja í mónopolíinu og ber hann hærri gjöld. Það er samt ekki árennilegt að ætla sér að framleiða og selja bjór. T.d. er 5 krónu umhverfisskattur (ca 110 kall) á hverja tóma flösku sem ekki fæst endurgreiddur af kaupanda. Það þýðir að míkró bjór er yfirleitt seldur í stórum flöskum í Noregi, ca 750 ml og því dýr eftir því. Það má ekki auglýsa bjór heldur og það er mjög takmarkað hvernig barir geta auglýst sig. Markaðssetning fer því helst fram í gegnum Facebook og það hefur gengið mjög vel. Það er fullt næstum öll kvöld sem er opið og væri hægt að selja mun meira ef opið væri fleiri kvöld.
Þetta var skemmtileg heimsókn til Halden. Endilega stoppið þar við ef þið eigið leið um og látið vita hvernig þeim gengur að brugga bjór.

https://www.facebook.com/pages/Halden-M ... 8806810612" onclick="window.open(this.href);return false;