Singlecut er innan við árs gamalt. Það er starfrækt í einu rými, á að gista 200fm. Að framan er "Tap room", þ.e. bar og veitingasala fyrir fólk og gangandi. En þó ekki bara venjulegur bar, því þar eru líka geymdir kútar í gerjun. Meira um það síðar. Þar er líka tónleikasvið svo hægt er að halda þar góðar skemmtanir.
Singlecut býður upp á skoðunarferðar um helgar. Þegar ég var þar var ekki mikið um fólk í þeim hugleiðingum. Mér tókst þó að fá þá til að sýna mér verksmiðjuna í einkatúr. Þetta er frekar lítið brugghús. Ein meskitunna er ca 30-40 barrels að stærð (barrel er ca 120 lítrar). Þeir sögðust meskja allt í 60 mínútur, þaðan er virtinum dælt í suðutunnu og allt er soðið í 120 mínútur. Þeir eru með 3 gerjunartanka þar sem bjórinn er gerjaður í 7 daga, þá er honum dælt í lagertunnur til frekari lageringar í 2 vikur ef um er að ræða lager, annars í kolsýrutunnur þar sem bjórinn er kolsýrður (eða "nítraður") á 24 tímum. Í stuttu máli er þetta ferlið hjá þeim. Þeir brugga 3 daga í viku.
Til að aðgreina sig frá öðrum þá hafa þeir farið út í að gera nokkuð óvenjulega bjóra. Bjórinn sem fékk mig til að kynna mér þá í upphafi er Neil - svartur IPA - sem er sagður vera bruggaður sem Stout og humlaður sem IPA. Sannarlega mjög óvenjulegur bjór, mikil fylling og kröftugt bragð.
Það óvenjulegasta frá þeim er samt líklega John Michael - Rum Barrel Aged Dark Lager - með nítro gasi sem gerir hann míkri vegna minni loftbóla. Þessi bjór er geymdur í 6 mánuði í eikartunnum undan rommi frammi í "Tap room", þar sem viðskiptavinirnir koma saman og drekka bjór. Rommtunnur eru óvenjulegar, upprunalega komnar undan Bourbon, síðan notaðar í fjölmörg ár undir romm í karabísku eyjunum, uns þær enda hjá Singlecut. Tunnurnar eru þá um 30 ára gamlar og þeir segjast þær duga í ca 2 skipti hjá þeim. Bjórinn var að sjálfsögðu smakkaður og reyndist hann hinn ljúfasti, afskaplega fínn og gott eikarbragð af þessum dökka lager.
Aðrir bjórar sem ég smakkaði voru Kim - súr lager - og 19-33 - lager - báðir hinir ágætustu.
Læt svo fylgja með nokkrar myndir til gamans.