Fréttabréf Fágunar júní 2015

Upplýsingar um viðburði og tilkynningar frá stjórn Fágunar
Post Reply
User avatar
æpíei
Undragerill
Posts: 825
Joined: 14. Dec 2012 21:46

Fréttabréf Fágunar júní 2015

Post by æpíei »

Í þessu fréttabréfi:

- Dagskrá á næstunni
  • - Kútapartý á Menningarnótt
    - Gorhátíð í haust
    - Mánaðarlegir fundir
    - Heimabruggtúr í miðbænum
- Niðurstöður í bruggkeppni Fágunar 2015, bruggkeppni 2016

- Vefsíða Fágunar

- Skráning í félagið og afslættir


DAGSKRÁIN Á NÆSTUNNI

Þann 22. ágúst verður Menningarnótt haldin í Reykjavík í 20. skipti. Fágun heldur að vana kútapartý á Klambratúni þennan dag. Kútapartýið hefur verið mjög vinsælt og jafnt félagsmenn sem aðrir hafa fjölmennt, notið veðursins og gætt sér á veitingum.

Við lýsum eftir bjórkútum í Kútapartýið. Það er upplagt að setja smá bjór á kút og taka hann til hliðar fyrir þetta tilefni. Við hjálpum til ef vantar aðstöðu til að kolsýra eða servera á staðnum. Endilega hafið samband við fagun hjá fagun.is.

Á síðastu Menningarnótt komu nokkrir aðilar sem gera sínar eigin pylsur og voru með samkomu á eftir okkur. Það væri gaman ef einhver sem fær þennan póst viti deili á þessum pylsugerðarmönnum og léti okkur vita. Við höfum mikinn áhuga á samvinnu við þá þetta árið :)

Fágun stefnir á að halda Gorhátíð í haust. Í fyrra var bruggkeppni í tengslum við Gorhátíðina og sigurbjórinn var bruggaður sem Austr og seldur af Steðja um páskana. Við viljum gjarnan heyra frá ykkur hvað þið viljið sjá á Gorhátíð 2015. Viljið þið aðra bruggkeppni og þá hvernig? Endilega látið heyra frá ykkur í pósti eða á vefsíðu Fágunar.

Mánaðarlegir fundir hafa verið haldnir á mismunandi stöðum í bænum síðustu mánuði. Við heimsóttum Skúla í apríl og Mikkeller í júní. Í júlí verður sérstakur fundur með öðru formi. Fundurinn verður miðvikudaginn 1. júlí kl. 18 í heimahúsi vestur í bæ. Fylgist með á heimasíðu eða Facebook grúppu Fágunar fyrir nánari upplýsingar er nær dregur.

Fágun stefnir á að halda heimabruggtúr í miðbæ Reykjavíkur í september. Svona túrar eru farnir í mörgum borgum og fara þannig fram að gengið er á milli heimila nokkurra heimabruggara, heilsað upp á þá og smakkað á því sem þar er gert. Við auglýsum eftir áhugasömum þátttakendum í þetta verkefni. Gjald verður tekið fyrir túrinn og skiptist það milli þeirra sem bjóða heim til að mæta kostnaði vegna þess. Hafið samband við Fágun ef þið viljið vera með.

Það er upplagt að tengja viðburðardagatal Fágunar við símann þinn svo þú missir ekki af neinum viðburði. Sjá þessa færslu hér hvernig það er gert http://fagun.is/viewtopic.php?f=25&t=3169" onclick="window.open(this.href);return false;


BRUGGKEPPNI FÁGUNAR

Bruggkeppni Fágunar 2015 fór fram í maí sl. Tókst hún mjög vel og keppniskvöldið sjálft var vel sótt. Alls komu 40 bjórar í keppnina og var úrval og fjölbreytni bjóra mjög mikil. Sigurvergarar hafa verið kynntir á http://fagun.is/viewtopic.php?f=25&t=3485#p27199" onclick="window.open(this.href);return false;

Ákveðið hefur verið að í bruggkeppni 2016 verði sérflokkurinn súrir og fönkí bjórar. Þar sem gerð þannig bjóra er talsvert tímafrek er því tilvalið að fara að huga að því að gera bjór fyrir keppnina 2016 nú þegar.


VEFSÍÐA FÁGUNAR

Við erum að vinna í því að færa hýsingu á vefsíðu Fágunar yfir á nýjan vefþjón. Því má búast við því að síðan gæti legið niðri tímabundið meðan á sjálfum flutninginum stendur. Við reynum að sjálfsögðu að hafa það sem styst.

Þessi flutningur mun líka hafa áhrif á útlit síðunnar og mögulegt er að það verði önnur tæknileg vandamál fyrst í stað. Þetta er þó aðeins fyrsta stigið í breytingum sem eru nauðsynlegar af ýmsum ástæðum. Við stefnum að því að færa vefinn síðar í annað vefstjórnarkerfi sem gefur aukna möguleika og kost á mun betri notkunarupplifun fyrir notendur.


SKRÁNING Í FÉLAGIÐ

Fágun er opið öllum einstaklingum 20 ára og eldri. Skráning í félagið fer fram í gegnum heimasíðu félagsins, sjá http://fagun.is/viewtopic.php?f=26&t=891" onclick="window.open(this.href);return false;

Fyrir félagsgjaldið fá félagsmenn forgang á atburði félagsins og eftir atvikum ókeypis í rútur og annað sem gestir utan félagsins þurfa að borga fyrir. Auk þess býðst félagsmönnum 25% afsláttur á Hlemmur Square bar og 15% afsláttur á Skúla craft bar gegn framvísun félagsskírteinis.
Post Reply