Ég hef verið mikill áhugamaður um gerjun frá því löngu áður en ég byrjaði að drekka áfengi. Þegar að ég vildi svo fara að prófa að gerja bjór las ég allt um bjór og bjórgerð sem að ég gat komist yfir og tók fljótt þá ákvörðun að all-grain væri eina málið. Á þeim tíma (2001) fékkst náttúrulega ekkert af hráefnum hér og mér leist ekkert á síróp kit-in sem voru í boði. Ég byrjaði því ekki að brugga bjór fyrr en ég flutti til Bandaríkjanna sumarið 2003. Fyrsti bjórinn sem ég bruggaði var partial mash, og eftir það varð ég að hafa enn meiri stjórn á öllu og fór því strax yfir í all-grain. Ég hef einnig fengist við mjaðargerð en aldrei haft áhuga á víngerð vegna þess hve litla stjórn maður hefur á útkomunni (hafiði svo líka séð allan listann af þeim efnum sem er bætt í vín mustið!!) auk þess sem að mér þykir vín vera frekar einhæft (í samanburði við bjór þ.e.a.s.). Þið megið ekki halda að ég hafi horn í síðu víngerðar, þvert ámóti, ég kann vel að meta góð vín. Ég hef ekki áhuga á víngerð nema að ég hefði aðgang að ferskum þrúgum. Ég baka brauð annan hvern dag og hef verið að fikra mig áfram í ostagerð.
Fyrir mér er það að brugga bjór nátengt því að elda góðan mat (annað áhugamál). Það að ímynda sér samspil bragðs, lyktar, litar, áferðar o.s.frv., setja saman uppskrift og framkvæma það er það skemmtilegasta sem ég þekki, hvort sem það er um matreiðslu eða bjórgerð að ræða. Ég eyði mjög miklum tíma í að para saman mismunandi bjórstíla við ýmsa rétti og osta.
Ég hef barasta mikinn áhuga á öllu því sem tengist gerjun og sérstaklega bjórgerð. Hráefni, saga og aðferðir er allt nokkuð sem að maður hefur lagt mikinn tíma í að stúdera. Ég hef reynt við marga mismunandi stíla í gegnum tíðina og get ekki sagt að ég haldi upp á einn stíl frekar en annan. Hef einnig lagað slatta af bjórum sem eru utan marka niðurjörfaðra stíla. Að mínu áliti eru allir bjórar sem eru vandaðir og bragðast vel góðir, hvort sem að það er Miller Genuine Draft eða Westvleteren 12. Hver bjór hefur sinn stað og tíma.
Eftir margra ára umhugsun ákvað ég svo loks að láta verða af formlegu bruggaranámi og er sem stendur í námi við American Brewers Guild. Ég útskrifast í haust og vonast til að starfa við framleiðslu á þessum unaðsdrykk að námi loknu, hvort sem að það er hér heima á Íslandi eða erlendis.