Síðan bjórinn var leyfður hefur hann verið uppstaðan í minni áfengisneyslu, sem hefur lengst af ekki verið mikil eða stórkostleg með tímabundnum undantekningum í góðra vina hópi. Eftir á að hyggja hef ég varla nokkurn tímann dottið íða án þess að bjór ætti stóran hlut að máli. Og eftirstöðvarnar alltaf svipaðar og í réttu hlutfalli við það hversu gaman var kvöldið áður.
En fyrir nokkrum vikum fékk ég þá flugu í haus að brugga mér létt"vín". Og það hef ég gert með því að gerja ávaxtasafa (epla, ananas, appelsínu) og venjulegan strásykur með brauðgeri. Einfalt ódýrt og umfram allt; skemmtilegt. Útkoman er ljós áfengur drykkur - líkur hvítvíni- líklegast kringum 10%. Þetta hef ég drukkið með misgóðri lyst. Sumt hefur ekki lukkast skemmtilega en annað komið á óvart.
Af þessu hefur leitt að undanfarnar vikur hef ég fengið mér vel í tána af víni eingöngu. Semsé enginn bjór í spilinu og ekki heldur eimað áfengi. Bara þetta létt"vín". Ég veitti því strax athygli að líðanin daginn eftir var betri en ég á að venjast eftir áfengisneyslu. (Ég tek það fram að ég verð almennt ekkert svakalega timbraður og þekki marga sem finna meira fyrir þeim en ég) Ég er búinn að gera nokkrar tilraunir með þetta og niðurstaðan er enn sú sama - daginn eftir finn ég að sjálfsögðu fyrir því að ég hafi sofnað drukkinn, en það er engin vanlíðan, engin þörf fyrir að leggja sig, engin þyngsli yfir hausnum, og engin andleg vanlíðan - sem er fyrir mig stærsti kosturinn.
S.l föstudag lenti ég á skralli með vinum og drakk nokkra bjóra. Líklega 3-4 lítra yfir langt kvöld, daginn eftir kom allur þessi dæmigerði timburmannapakki, sem sýnir að það er allt óbreytt hvað það snertir.
Mér sýnist allt stefna í óhjákvæmilega niðurstöðu - að ég hætti algerlega að drekka hinn eðla drykk bjór, eða takmarki neyslu hans mjög verulega. Það er ekki hægt að líkja þessu saman, slíkur er munurinn.
Kannist þið við þetta?