Eftir að SWMBO kom með La Trappe gjafaöskju með sér frá Hollandi með tilheyrandi smakk-session á mismunandi Trappist bjórum kom í ljós að Dubbel er eitthvað fyrir mig (og SWMBO). Af öllum Dubbel-bjórum sem ég smakkaði stóð La Trappe uppi eftir sem sigurvegari hjá okkur. Ætli við séum ekki meira fyrir sætari útgáfur og minna beiskar.
Uppskriftin er lauslega byggð á upplýsingum um gerð Dubbel úr bókinni Brew Like a Monk eftir Stan Hieronymus.
Tölur fyrir 21 lítra
OG = 1.072 (ég fékk 1.069 í fyrstu umferð)
IBU = 16,4
SRM = 31
ABV = 7,1% (miðað við est. FG = 1.018, ég fékk 1.016 í fyrstu umferð)
Korn
4,78 kg Pilsner (Belgískt frá Castle Malting)
0,64 kg Wheat Malt, Pale (Weyermann)
0,32 kg CaraMunich 2 (Weyermann)
0,32 kg Special B (Belgískt frá Castle Malting)
Meskjað við hærri endan á hitaskalanum, 68-70°C. Þetta geri ég til að reyna að ná einhverri afgangssætu í lokaafurðina. Einnig eru sérstakar viðbætur við vatnið til að draga betur fram karakterinn úr korninu (sjá fyrir neðan).
Annað sætt
Candi Sugar, Dark (D-180 frá Brew.is) einn pakki (held 450gr) - Þetta setti ég út í suðuna þegar 10 mínútur voru eftir. Ég tók ca. 1-1,5 lítra af virtinum úr pottinum og blandaði saman við candi sýrópið (leystist strax upp). Svo er blöndunni bætt við út í suðuna aftur. Þetta gerði ég til að vera öruggur um að allt leystist upp og blandaðist vel, til að sýrópið myndi ekki enda á botninum eða á elementinu og brenna við.
Humlar
60 mín - 23 gr Celeia - 11,2 IBU
30 mín - 13 gr Saaz - 5,2 IBU
Miðað á sem minnsta beiskju. Mér fannst margir Dubbel bjórar vera of beiskir, sem gerir það líka að verkum að aðrir bragðeiginileikar (t.d. úr korninu) falli svolítið í felur bakvið beiskjuna.
Ger
2 pakkar Wyeast 1214 Belgian Abbey
Viðbót við bruggvatn
Gips = 5 gr
Calcium Klóríð = 7 gr
Matarsódi = 10 gr
ATH: Soðið er í 90 mínútur!
Gerjað er svo við 22°C í 2 vikur, hækkað í 24-25°C í 1-2 vikur. Ef þú setur á flöskur skalltu miða við hærra kolsýrulevel en venjulega, ca. 3 vol. (ath að hærri hiti í gerjun veldur því að meiri kolsýra sleppur út, gott að hafa í huga).
Liturinn á þessum bjór er mjög dökkur. Myndi lýsa honum sem dökk-rauðbrúnum. Ef þú vilt hafa þinn Dubbel ljósari gætirðu prófað að minnka annað hvort CaraMunich 2 eða Special B (eða bæði) og fylla upp í með Pilsner eða einhverju öðru sem þér dettur í hug. Einnig væri líka hægt að velja ljósari Candi sykur.
Bragðið á þessum tímapunkti (tæpum 2 vikum eftir átöppun) er betra en ég gat átt von á í fyrstu tilraun. Mikið af dökkum ávaxtatónum, rúsínum, candisykurbragð, karmella. Hlakka mikið til að sjá hvernig hann eldist og þroskast með tímanum. Hendi inn mynd af honum við tækifæri.