Page 2 of 2

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 14:57
by æpíei
Siggi.jpg
Siggi.jpg (59.61 KiB) Viewed 55688 times
Framboð til Formanns Fágunar

Kæru félagsmenn Fágunar. Ég heiti Sigurður Snorrason og býð mig fram til formanns félagsins á aðalfundinum 23. maí næstkomandi. Ég hef verið félagsmaður sl. 1,5 ár og mætt ötullega á fundi og aðra viðburði. Ég hef bruggað álíka lengi og er mikill áhugamaður um bjórgerð og gerjun annarra drykkja. Á daginn starfa ég sem framkvæmdastjóri í litlu spennandi sprotafyrirtæki. Ég hef margra ára reynslu sem stjórnandi, hef unnið að stefnumótun og almennum rekstri.

Verði ég kjörinn vil ég leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi málefni:

Fræðsla
Lög félagsins kveða á um að það eigi að miðla þekkingu og vil ég sjá félagið auka þátt sinn í því, enda er fræðsla og miðlun þekkingar mikilvægir þættir í lifandi og skemmtilegu brugg umhverfi. Það mætti meðal annars gera með eftirfarandi:
- Aukin miðlun þekkingar á mánudagsfundunum. Það væri upplagt að hafa stuttan fyrirlestur eða kynningu á hverjum fundi á léttu nótunum um eitt og annað fróðlegt, en jafnframt spennandi.
- Að vefsíða Fágunar endurspegli fræðslu og miðlunar markmið með fræðsluflokki þar sem er að finna það helsta sem nýliðar jafnt sem lengra komnir þurfa að vita til að gerja góða drykki.
- Fágun á að taka vel á móti öllum nýliðum og hjálpa þeim við að koma sér farsælega af stað í þessu hobbýi. Nýliðar eiga að fá að spyrja óhræddir á fundum og þá væri gaman ef félagsmenn væru ófeimnir við að bjóða nýliðum heim og fylgjast með þeirra bruggferli. Slíkt er ómetanlegt í upphafi.
- Bækur um gerjun og bruggun eru ill fáanlegar á Íslandi en Fágun gæti staðið fyrir innkaupum á bókum og selt til félagsmanna á kostnaðarverði. Með því að samnýta sendikostnað og póstmeðferðargjöld væri hægt að lækka kostnað á einstökum bókum umtalsvert.
- Fágun ætti að setja sér það markmið að fá erlenda fyrirlesara til að halda hér erindi. Ég þykist vita að það sé áhugi á að koma hingað hjá ýmsum þekktum bruggfræðingum. Þetta er „bara“ spurning um að kanna það betur og ef heppnin er með okkur, útvega fjármagn. Ég lofa engum fyrirlesara á næsta ári, en vil leggja grunn að því að að það verði fyrr en síðar.

Skemmtun
Það er mikilvægt að hafa gott hlutfall fræðslu og skemmtunar. Ferðir í brugghús og á aðra staði er mikilvægur hluti starfseminnar. Ég vil sérstaklega kanna með að fara í heimsóknir út á land. Þá er líka spennandi að fara í heimsóknir til annarra heimabruggara sé kostur á því.

Bruggarar um allt land
Það eru kjarnar af öflugum bruggurum á nokkrum stöðum utan höfuðborgarinnar og vil ég að Fágun stuðli að myndun staðbundinna hópa á þeim svæðum, t.d. á Suðurnesjunum, Ísafirði og Akureyri. Ég mun leggja mig fram um að meðlimir stjórnarinnar heimsæki alla þá staði og fundi með heimamönnum a.m.k. einu sinni á starfsárinu.

Lagaumhverfi
Ég styð að félagið komi á fót nefnd til að vinna að bættri lagaumgjörð varðandi gerjaða drykki. Það þýðir þó ekki að stjórnin eigi ekki að taka virkan þátt í því verki í samvinnu við nefndina.

Bruggkeppni
Ég vil auka veg Bruggkeppninnar. Það er mikill metnaður í bruggurum og eiga þeir heimtingu á að Bruggkeppnin sé í háum gæðaflokki. Ég vil kanna hvort Fágun geti beitt sér fyrir að hér á landi verði í framtíðinni viðurkenndir bruggdómarar (BJCP) með tilskilin réttindi til að mennta fleiri dómara. Þá vil ég einnig kanna hvort áhugi er fyrir bruggkeppni á öðrum drykkjum en bjór, t.d. cider og miði.

Konur
Ég vildi gjarnan sjá meira af konum í félaginu. Ég vil kanna hvernig hægt er að höfða meira til kvenfólks, því Fágun á alls ekki að vera karlaklúbbur.

Vinafélög Fágunar
Ég vil athuga með að stofna til vinskapar milli erlendra áhugafélaga um gerjun og bruggun. Ég held að hér séu mörg skemmtileg tækifæri, því reynsla mín er sú að bruggarar hvar sem ég hef farið sýna mikinn áhuga á að deila upplýsingum og heyra hvað fólk í öðrum löndum er að gera.


Kæri félagsmaður. Ég vona að þú sjáir þér fært að mæta á aðalfundinn og kjósa mig til formanns. Hafir þú einhverjar spurningar er þér velkomið að senda póst á mig hér (æpíei) eða sigurdurp hjá gmail punktur com.

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 16:01
by gugguson
Ég kemst ekki á fundinn (er því miður að fara í bjórferð til belgíu og verð því erlendis).

Ég hef samt áhuga á að kjósa til formanns. Má ég gefa félaga mínum umboð til að kjósa í mínu nafni (ég tel að það væri ekki bara eðlilegt heldur einnig lýðræðislegt).

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 16:26
by Eyvindur
Það er ekkert um þetta í lögum félagsins, en venjan er sú að allar atkvæðagreiðslur fari fram með handauppréttingu á aðalfundi. Ég á erfitt með að ímynda mér að hægt sé að taka atkvæði fjarstaddra gild. Er einhver fróðari en ég sem getur tekið af tvímæli um þetta, í aðra hvora áttina?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 19:31
by elvar
Þá væri félagsárið líka almanaksárið eins og algengast er og þá eru menn að borga í janúar fyrir árið framundan. rukkun send út í byrjun mánaðar með hvatningu um Borg.

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 21:06
by hrafnkell
Verður sennilega líka minna um spurningar um hvenær félagsárið er og hvenær er hægt að borga osfrv. :)

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 21:17
by Eyvindur
Já, það er held ég einfaldara að öllu leyti nema kannski akkúrat því hvenær er heppilegast að hafa aðalfundinn. En það er praktískt atriði - ég held að það sé löngu tímabært að breyta þessu félagsári, sem hefur staðið til lengi.

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 22:39
by flokason
Eyvindur wrote:Það er ekkert um þetta í lögum félagsins, en venjan er sú að allar atkvæðagreiðslur fari fram með handauppréttingu á aðalfundi. Ég á erfitt með að ímynda mér að hægt sé að taka atkvæði fjarstaddra gild. Er einhver fróðari en ég sem getur tekið af tvímæli um þetta, í aðra hvora áttina?
Ég mun einnig ekki komast á fundinn, en langar að kjósa

Ef það má ekki taka niður atkvæði fjarstaddra.. hvernig væri að hafa utankjörstaðs kosningu.. ég get skroppið til helga og kosið hjá honum

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 23:12
by Eyvindur
Ég sé bara ekki alveg hvernig það á að ganga, þar sem framboð eru oftar en ekki tilkynnt á fundinum sjálfum. Það er bara einn aðili búinn að tilkynna framboð ennþá. Hvernig ætla menn að kjósa úr fjarlægð þegar ekki er á hreinu hvort fleiri, og þá hverjir, eru í framboði? Og hvað með hin embættin, þar sem enginn er búinn að bjóða sig fram formlega?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 23:21
by astaosk
Ég hef starfað í ansi mörgum félögum, og alltaf kemur þessi fyrirspurn upp, um utankjörfundaratkvæði, og mér finnst eins og alltaf hafi það endað mér því að praktískt séð væri það ómögulegt...

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 19. May 2014 23:21
by astaosk
Og nú er ég vonandi að komast upp úr þessu villigerilsástandi!

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 20. May 2014 00:16
by sigurdur
Ég er sammála Eyvindi og Ástu.

Það gengur ekki upp (í þetta sinn) að halda utankjörfundarkosningu sama þótt framboð komi í þessum þræði þar sem lögin greina ekki frá þörf þess að tilkynna framboð fyrir aðalfund.

Það er einnig ómögulegt að koma með tillögu núna þar sem skilafrestur er útrunninn.

Ég mæli sterklega með því að meðlimir beri fram tillögu til lagabreytingar þar sem tekið er á þessu á næsta aðalfundi.

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 20. May 2014 12:08
by Sindri
Væri ekki sniðugt að hafa reglur/lög félagsins og einhverjar basic upplýsingar í WIKI flipanum hérna efst á síðuni ?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 20. May 2014 12:33
by æpíei
Það hefur lengi staðið til að gera bragarbót á þessari vefsíðu til að auka fræðslu- og notagildi hennar. Það er eitt af því sem eg mun leggja mikla áherslu á verði ég kosinn formaður.

Varðandi utanfundaratkvæði þá er ljóst að það þarf að koma til móts við þá félagsmenn sem ekki eiga þess kost að mæta á aðalfund. Það eru félagar sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu, þeir eiga jafnan rétt og aðrir að ákvarða um framtíð og stjórnarhætti félagsins. Það er ljóst að það þarf að skoða þessi mál og breyta þá lögum félagsins á aðalfundi eftir ár.

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 23. May 2014 12:28
by Eyvindur
Minni meðlimi á að mæta á fundinn í kvöld. Mæting er 18.00 í Friðarhús, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Það verður boðið upp á veitingar og smakkaður afgangsbjór úr keppninni. Einnig er öllum frjálst (og allir hvattir til) að koma með bjór til smakks. Það er mikilvægt að fá tilskilinn fjölda meðlima, svo fundurinn verði löglegur.

Sjáumst hress í kvöld!

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 23. May 2014 22:13
by bergrisi
Komst ekki á fundinn sökum vinnu, en er rosalega forvitinn.
Hvernig er ný stjórn skipuð?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 23. May 2014 23:41
by æpíei
Stjórn næsta starfsárs er þannig skipuð:

Sigurður (ég) formaður
Karl ritari
Ásta gjaldkeri

Það er spennandi ár framundan!

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 23. May 2014 23:44
by bergrisi
Til hamingju.
Óska nýrri stjórn góðs gengis.
Hvernig var mæting á fundinn?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 24. May 2014 00:51
by hrafnkell
14 manns á fundinum. Miklar pælingar um hina og þessa lagabálka. Óþarflega miklar að sumra mati ;)

Karl kemur sennilega með betri útlistun á fundinum fljótlega.

Hér er nýja stjórnin, gríðarlega sæl eftir harða kosningarbaráttu. Í fyrsta skipti í langan tíma voru fleiri en eitt framboð :)

Image

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 24. May 2014 02:31
by æpíei
Það voru samþykktar grundvallar breytingar er varða starfsár félagsins. Það er nú almanaksárið, sem þýðir styttra ár framundan. Félagsgjaldið verður því aðlagað að því. Karl mun upplýsa allt um það hér á næstunni þegar fundargerðin verður birt. Fágun mun samt halda uppi mjög öflugri starfsemi með mörgum viðburðum til áramóta. Vonumst til að sjá sem flesta á næsta mánudagsfundi þar sem breytingarnar verða kynntar. Við erum alltaf til í að heyra hugmyndir ykkar um hvernig Fágun getur orðið betri félagsskapur fyrir áhugafólk um gerjun.

Takk fyrir stuðninginn.

Sigurður P

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 24. May 2014 17:20
by karlp

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 25. May 2014 11:23
by Dabby
Takk fyrir skemmtilegann fund.

Einhverra hluta vegna endaði bjórinn sem ekki var drukkinn heima hjá mér, sem og plastkassarnir sem hann var í.

Ég geri ráð fyrir að ný stjórn ákveði hvað á að verða um þennann bjór, þetta eru alveg 23 stk.

Vilja þeir sem lögðu til þessa plastkassa ekki fá þá aftur?

Re: Boð á aðalfund Fágunar 2014

Posted: 27. May 2014 10:10
by helgibelgi
Dabby wrote:Takk fyrir skemmtilegann fund.

Einhverra hluta vegna endaði bjórinn sem ekki var drukkinn heima hjá mér, sem og plastkassarnir sem hann var í.

Ég geri ráð fyrir að ný stjórn ákveði hvað á að verða um þennann bjór, þetta eru alveg 23 stk.

Vilja þeir sem lögðu til þessa plastkassa ekki fá þá aftur?
Ég vil endilega fá þessa tvo Færeysku kassa sem ég á :D