Ég eldaði um síðustu helgi uppskrift sem ég fann á netinu af svínakótelettum. Ég keypti bakka af kótelettum í krónunni á fínum prís og ákvað að gera ekki venjulega (award winnig) hungang/sinnepsgljáann minn heldur flippa eitthvað með þetta.
Marineringin er í rauninni pækill sem hjálpar kjötinu að safna vökva í sig, því eins og menn vita er auðvelt að gera svínakótelettur þurrar og leiðinlegar ef ekki er rétt staðið að málum.
Í uppskriftina þarf eftirfarandi :
Fyrir pækil :
2 bollar vatn
1/2 til 1 flaska dökkur bjór (Ég notaði rúmlega hálfa flösku af Fuller's 1845)
1/4 bolli maldon salt
1/4 bolli púðursykur eða annar brúnn sykur
1/4 bolli melassi (Molasses, ég keypti minn í heilsuhúsinu)
1 1/2 bolli ísmolar
Fyrir kótelettur:
5-6 Kótelettur með beini.
6 geirar hvítlaukur, kraminn.
2 teskeiðar salt
2 teskeiðar svartur mulinn pipar.
Aðferð:
Setti 2 bolla af vatni í lítinn skaftpott og hitaði, bætti salti, púðursykri og melassa í og lét leysast upp. Færði yfir í skál og bætti ísmolum við til að kæla og síðan bjórnum. Setti kótelettur í eldfast mót og hellti marineringunni yfir. Lét þetta hvílast í 3-4 tíma. Tók kóteletturnar uppúr og leyfði pæklinum að renna af þeim.
Blandaði saman hvítlauk salti og pipar í skál, smurði utaná kóteletturnar og setti inn í ofn og eldaði þar til hitinn í kótelettunum náði 65°C, síðan hvíldi ég þær í 3 mínútur áður en ég bar þær fram.
Með þessu hafði ég kartöflugratín og ferkst salat og að sjálfsögðu góðan bjór!
Skál.
