Fulltrúar Fágunar á fundi Allsherjarnefndar

Á þessum þræði geta meðlimir spjallborðsins sett fram allt sem tengist gerjun. Ennig spurt spurninga og fengið aðstoð frá öðrum meðlimum.

Fulltrúar Fágunar á fundi Allsherjarnefndar

Postby thorgnyr » 2. Mar 2016 23:07

Á haustmánuðum síðastliðins árs var skipaður starfshópur innan Fágunar til að senda inn umsögn um áfengisfrumvarpið svokallaða, með það að markmiði að ‘sneika’ inn ákvæði sem tekur af allan vafa um að heimagerjun léttra áfengra drykkja til einkaneyslu sé í raun lögleg iðja. Í hópinn voru skipaðir þeir Gunnar Sigurðsson, Hrafnkell Freyr Magnússon, Sigurður Snorrason og Þórgnýr Thoroddsen. Umsögnina sjálfa má finna hér: http://www.althingi.is/altext/erindi/145/145-347.pdf

Umsögn Félags áhugafólks um gerjun (Fágun) um breytingar á áfengislögum.

Gerjun drykkja hefur löngum verið stunduð hér á landi. Gerjun, hvort heldur með tilbúnu geri eða náttúrulegu, er sú aðferð að breyta sykruðum legi í léttan áfengan drykk, t.d. áfengan berja- og ávaxtasafa, mjöð sem er að uppistöðu uppleyst hunang, síder sem er að uppistöðu eplasafi, bjór og léttvín. Gera má ráð fyrir að fjöldinn allur af Íslendingum geri létta áfenga drykki á heimili sínu til einkanota sér til ánægju og yndisauka, þó svo nákvæm tala um þann fjölda liggi ekki fyrir.
Lög á Íslandi banna þó gerð áfengra drykkja sem eru yfir 2,25% alkahóls að rúmmáli hvort heldur til einkaneyslu eða sölu. Þrátt fyrir það er almannaálitið á þá vegu að það sé í raun ekki ólöglegt athæfi að gera létta áfenga drykki sem eru með meira alkahól en mörkin leyfa og hefur þessi iðja verið látin óáreitt af löggjafa sé hún gerð til einkanota. Í dag eru reknar nokkrar verslanir sem sérhæfa sig í að þjónusta áhugamenn um gerjun drykkja. Úrval og gæði hráefna er mjög gott og almennt má segja að gæði drykkja sem gerjaðir eru heima sé í háum gæðaflokki.
Í nágrannalöndum okkar og almennt í öllum vestrænum ríkjum ríkir sú regla að gerjun drykkja heima við til einkanota er leyfileg. Ísland er eitt með mörk áfengisprósentu það lágt að gerð flest allra léttra áfengra drykkja er í raun ólöglegt.
Fágun leggur inn þá tillögu að frumvarp að breyttum áfengislögum verði nýtt sem tækifæri til að rétta stöðu heimagerjenda og bendir hér á hvernig megi gera það á nokkuð einfaldan og skýran hátt. Athygli er vakin á því að með gerjun er átt við gerjun sykurlagar til gerð léttra áfengra drykka, en ekki eimingu eða styrkingu áfengis hverskonar.

Fágun leggur til eftirfarandi breytingar á Áfengislögum:

* - í 2. grein 75/1998 verði áfengi yfir 2,25% að rúmmáli nánar skilgreint sem létt áfengi og sterkt áfengi. 
* - leyfilegt verði að gera létt áfengi til einkaneyslu. Það má gera með viðbót við 4. grein 75/1998: "1. mgr. á þó ekki við um gerð létts áfengis á heimili ætlað til einkanota."
* - allar aðferðir til að breyta léttu áfengi í sterkt með eimingu og öðrum aðferðum verði bönnuð án leyfa.

Greinargerð:


Skv. 4. grein Áfengislaga 75/1998 er öll gerð áfengis til einkaneyslu eða sölu ólögleg. Hér er ekki gerður greinarmunur á áfengi eftir áfengisprósentu, né hvort áfengi er gerjað eða gert sterkara með eimingu eða öðrum aðferðum.
Í þeim löndum sem við gjarnan viljum miða okkar við er þessu öðru vísi háttað. Þar er áfengi skipt niður í mismunandi flokka af léttu áfengi og sterku áfengi. Oft er miðað við 22% í þessu skyni. Mismunandi reglur gilda svo um hina mismunandi flokka áfengis, s.s. skatta og frelsi til sölu og framleiðslu.
Sammerkt öllum þessum löndum er að gerð létts áfengis er leyfileg til einkaneyslu, sé það ætlað fjölskyldumeðlimum og ekki boðið til sölu. Fágun leggur til að fylgt verði fordæmi nágrannalanda okkar og gerð létts áfengis til einkanota verði leyfð.

Áfengislög í nágrannalöndum

Noregur: “Brennivín” er skilgreint sem hver sá drykkur sem inniheldur tilbúið alkóhól, óblandað eða blandað með öðrum vörum. Hver sá drykkur sem inniheldur 22% af rúmmáli eða meira er skilgreindur sem “brennivín”(1-3).
Ekki þarf að sækja um leyfi til áfengisframleiðslu til eigin neyslu svo lengi sem ekki er bruggað “brennivín”.(6-1)

Svíþjóð: Vín, léttöl, sterköl og aðrir gerjaðir alkóhóldrykkir skulu einungis framleiddir af þeim aðilum sem til þess hafa úthlutuð leyfi. Fyrsta málsgrein á þó ekki við um framleiðslu inni á heimili til einkanota.

Danmörk: Í Danmörku eru engin eiginleg lög um áfengi. Aftur á móti eru lög um skatt á bjór, vín og ávaxtavín sem segja: mesking, ísetning gers og eiming, sem leiðir til framleiðslu áfengis má aðeins fara fram hjá skráðum félögum.
  Undanþeginn skatti samkvæmt lögum þessum er bjór framleiddur af einstaklingi, svo framarlega sem hans sé neytt af honum sjálfum, fjölskyldu eða gestum hans, að því tilskyldu að engin sala eigi sér stað.

Samantekt yfir lögmæti heimabruggunar í öðrum löndum má sjá á https://en.wikipedia.org/wiki/Homebrewing


Fulltrúar Fágunar voru síðan boðaðir til fundar í Allsherjarnefnd þriðjudaginn 1. mars, á hinum svokallaða bjórdegi. Á þann fund fóru Gunnar, Margrét Ásgerður Þorsteinsdóttir (nýskipaður formaður Fágunar) og Þórgnýr. Fulltrúarnir fengu tækifæri til að ræða stuttlega um ástæður umsagnarinnar og tók síðan við spurningum sem voru að vísu ekki margar. Þingmenn voru afar forvitnir um hvaða félag þetta væri, og þótti starfsemi þess merkileg.
20160301_101111.jpg
Fulltrúar Fágunar spræk að loknum fundi.
User avatar
thorgnyr
Villigerill
 
Posts: 14
Joined: 26. Nov 2014 20:43

Re: Fulltrúar Fágunar á fundi Allsherjarnefndar

Postby Eyvindur » 4. Mar 2016 18:51

Ekkert smá hress. Alveg á hvolfi, bara!
Slæmdægur Brugghús
Í gerjun: Imperial Mild
Á flöskum: Allskonar gamalt dót
Á kút: London Porter, Norskt sveitaöl
Framundan: Bjór

Smelltu hér til að gera ekkert.
User avatar
Eyvindur
Æðstigerill
 
Posts: 2278
Joined: 5. May 2009 19:28
Location: Hafnarfjörður

Re: Fulltrúar Fágunar á fundi Allsherjarnefndar

Postby MargretAsgerdur » 7. Mar 2016 11:17

Eyvindur wrote:Ekkert smá hress. Alveg á hvolfi, bara!


Sko ef þú klikkar á myndina þá er hún ekki á hvolfi! Vitum ekki alveg hvað fór úrskeiðis :D
Fyrrverandi forynja Fágunar
MargretAsgerdur
Villigerill
 
Posts: 41
Joined: 5. May 2015 12:15

Re: Fulltrúar Fágunar á fundi Allsherjarnefndar

Postby Eyvindur » 9. Mar 2016 16:48

Hún er betri svona. :)
Slæmdægur Brugghús
Í gerjun: Imperial Mild
Á flöskum: Allskonar gamalt dót
Á kút: London Porter, Norskt sveitaöl
Framundan: Bjór

Smelltu hér til að gera ekkert.
User avatar
Eyvindur
Æðstigerill
 
Posts: 2278
Joined: 5. May 2009 19:28
Location: Hafnarfjörður


Return to Almenn umræða, Spurt og svarað

Who is online

Users browsing this forum: No registered users and 9 guests

cron